Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur ákveðið úthlutun velferðarstyrkja árið 2017, samtals um 72 milljónir króna. Styrkirnir renna til 28 verkefna á vegum íslenskra félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála og lúta einkum að forvarnar- fræðslu- og ráðgjafarstarfi.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir Óttarr Proppé styrkina bæði til þess fallna að efla starf frjálsra félagasamtaka en einnig til að veita þeim viðurkenningarvott: „Frjáls félagasamtök leggja mikilvæga vinnu af mörkum á sviði heilbrigðismála. Fjöldi fólks sinnir þessu starfi í sjálfboðavinnu og leggur fram krafta, reynslu og þekkingu. Þetta er vinna sem ekki er hægt að verðleggja til fulls og er á svo margan máta ómetanleg fyrir samfélagið.“

Hæstu styrkina að þessu sinni hlutu Krabbameinsfélag Íslands, Hjartaheill – landssamtök hjartasjúklinga, SÍBS og Gigtarfélag Íslands. Fær hvert þessara félaga 6,5 milljónir króna til að sinna stuðningi, fræðslu og ráðgjöf við félagsmenn. Rauði krossinn í Reykjavík fær 6,0 milljónir króna fyrir skaðaminnkunarverkefnið frú Ragnheiði.

Auglýst var eftir umsóknum um velferðarstyrki á sviði heilbrigðismála í janúar síðastliðnum. Úthlutun fjárins byggist á reglum um styrki af safnliðum fjárlaga velferðarráðuneytisins sem veittir eru ár hvert. Auk verkefna- og rekstrarstyrkja eru veittir styrkir til félagasamtaka sem starfa á sviði forvarna, fræðslu og endurhæfingar.