*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Innlent 15. september 2017 07:15

Óttarr vissi af uppáskrift föður Bjarna

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir forsætisráðherra hafa sagt sér í vikunni að faðir sinn hefði skrifað undir meðmælabréf.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar sem í gærkvöldi ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn, eins og Viðskiptablaðið sagði frá, segir að vilji stjórnar flokksins hafi verið eindreginn. Hann viðurkennir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi sagt honum í vikunni frá uppáskrift föður síns í „í einu máli.“

Óttarr segir í sama samtali við RÚV hafa heyrt af því í fjölmiðlum að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi sagt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá því að faðir hans, Benedikt Sveinsson hafi verið einn þeirra sem skrifuðu undir meðmælabréf um uppreist æru dæmds sakamanns.

Segir málið sýna trúnaðarbrest

Óttarr segir að það hafi sýnt ákveðinn trúnaðarbrest, en hinn dæmdi, Hjalti Sigurjón Hauksson, er annar þeirra barnaníðinga sem hafa fengið svokallaða uppreist æru í gegnum hefðbundið verkferli í stjórnkerfinu. „Það að þessu væri haldið leyndu alveg fram á síðustu stundu,“ segir Óttarr sem sem heyrði fyrst af málinu í kvöldfréttum. „Já, það fréttum við bara í fjölmiðlum.“

Dómsmálaráðherra hefur sagst vilja endurskoða ferlið heildstætt því henni hefur ekki þótt sjálfgefið að allir fái uppreist æru jafnvel þótt þeir uppfylli tiltekin lagaleg skilyrði en embættismenn hafi hingað til verið bundnir áratugavenju, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Afgreiðsla hins opinbera gefur sakamönnunum aftur rétt til að stunda atvinnu og önnur borgaraleg réttindi sem fylgja því að hafa lokið afplánun. Ferlið sem löng hefð hefur verið í stjórnkerfinu að líta á sem formsatriði hefur verið mikið í umræðunni undanfarið í tilviki uppreistar æru þeirra sem dæmdir hafa verið fyrir barnaníð, en ferlið á við um alla sem hafa lokið afplánun dóms.

Viðurkennir þó að Bjarni hafi sagt sér frá uppáskriftinni í vikunni

Óttarr segir þó að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi sagt honum frá málinu í vikunni. „Í vikunni þá sagði forsætisráðherra mér frá því að það hafi heyrst að faðir hans hefði skrifað meðmælendabréf út af einu máli en það var ekki ljóst út af hvaða máli það væri,“ segir Óttarr sem segist sammála niðurstöðu stjórnar flokksins.

„Mér finnst auðvitað þungt eftir að hafa lagt mikið af veði til að axla ábyrgð og stofna til ríkisstjórnarsamstarfs, sem eins og er vitað, var ekki vinsælt og hefur ekki verið vinsælt, en í þeirri trú að axla ábyrgð og vinna að verkum. En ég var sammála þessari ákvörðun stjórnarinnar.“

Ekki á vetur setjandi héðan af

Óttarr segist ekki vita hvað taki nú við, en hann segir grundvöllinn að samstarfi vera að traust þurfi að ríkja á milli manna. „Þannig að ég var sammála þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki á vetur setjandi héðan af,“ segir Óttarr

Nei, ég verð nú að segja eins og er að þetta er svo langt frá einhverri stöðu sem ég hef upplifað áður að ég átta mig hreinlega ekki á því. Þetta var náttúrulega eins og við munum, fyrir ekki ári síðan, mjög löng og erfið fæðing og langt frá því að vera sjálfsagt að það yrði ríkisstjórn og hvað þá ríkisstjórn þessara flokka. Þannig að það er mjög erfitt að spá í framhaldið.“