Um þriðjungur Bandaríkjamanna drekkur kaffi að staðaldri en fjáfestar og neytendur eru uggandi um áhrif fellibylsins Katrínar á vörubirgðir kaffiframleiðenda, segir í frétt Financial Times.

Enn er ekki vitað nákvæmlega hversu miklar skemmdir urðu á vöruhúsum kaffiframleiðenda í New Orleans, en þar eru um 27% allrar kaffiframleiðslu Bandaríkjanna geymd. Fjárfestar og neytendur eru því óvissir um hvort verð á kaffi muni hækka enn meira.

Eftir að Katrín reið yfir ríkið, rauk kaffiverð upp um 11% í New York en síðan hefur það hjaðnað lítillega. Verð á kaffibaunum hefur ekki sveiflast eins mikið upp á við og olíuverð og kom það mörgum á óvart með tilliti til þess hve rokgjarn kaffimarkaðurinn er, en í gegnum tíðina hefur kaffiverð endurspeglað og haldist í hendur við efnahagsbreytingar.

Eins og margar landbúnaðarvörur er kaffiverð viðkvæmara fyrir framboði heldur en eftirspurn. Upplausnarástandið í kjölfar Katrínar hefur dregið úr framboði margra birgja og það gæti leitt til verðhækkana á kaffi.

Kaffibirgjar standa andspænis miklum birgðarvandamálum, rafmagnsleysi í vöruhúsum hefur þannig hamlað flutningum á kaffibaunum og skapað flöskuháls í framleiðsluferlinu. Sumir óttast einnig að kaffibirgðir vöruhúsanna hafi orðið fyrir skemmdum í flóðunum.

New Orleans er einn stærsti kaffiútflytjandi heims og mun þurfa tíma til að ná upp fyrri afköstum. Til að mynda hafa mörg stærri kaffimölunarfyrirtæki á New Orleans svæðinu þurft að hætta framleiðslu vegna náttúruhamfaranna. Anni fyrirtækin ekki eftirspurn gætu orðið enn meiri verðhækkanir á kaffibaunum á vetri komanda. Koffínfíklar eiga á hættu að borga enn meira fyrir skammtinn!