Framkvæmdastjóri Google-leitarvélarinnar kveðst óttast að ef verði af kaupum Microsoft á Yahooo-leitarvélinni gæti það skaðað frjálst upplýsingaflæði á netinu.

Microsoft bauð 44,6 milljarða dollara í Yahoo í liðnum mánuði en stjórn Yahoo hafnaði því á þeim forsendum að það væri of lágt.

„Öll kaup Microsoft á Yahoo myndi valda okkur áhyggjum. Við myndum vona að allar gerðir þeirra væru í samræmi við frelsið sem ríkir á netinu, en ég efast um að svo yrði,” sagði Eric Schmidt í samtali við blaðamenn fyrr í dag. „Við óttumst að Microsoft myndi gera ákveðna hluti sem gætu verið netinu skaðlegt.”

Hann útskýrði mál sitt ekki nánar að sögn Reuters fréttavefjarins en benti á fortíð Microsoft máli sínu til stuðnings. Microsoft hefur undanfarin ár sætt gagnrýni og málssóknum vegna brota á samkeppnisaðilum sínum.