Margir í atvinnulífinu hafa áhyggjur af því að ef krónan verður áfram svona veik um næstu áramót komi ársreikningar íslenskra fyrirtækja ekki til með að líta vel út.

Þeir sem eru með skuldir sínar í erlendri mynt og það eru mjög margir gætu verið með neikvætt eigið fé um áramót. Þetta þýðir að þegar þeir senda ársreikninga sína til greiðslumatsfyrirtækja (e. credit rating) eða viðskiptavina sinna er hætta á að þeir verið færðir verulega niður.

Það getur haft í för með sér að mjög líklegt er að birgjar gætu ekki fengið greiðsluhæfi (e. credit insurance) á þessi fyrirtæki sem þýddi að þau þyrftu að fyrirframgreiða alla vöru.

„Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því hvað þessi staða gæti orðið alvarleg fyrir stóran hluta fyrirtækja á Íslandi," sagði einn fyrirtækjastjórnandi í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann benti á að ef aftur á móti krónan væri komin í jafnvægi gæti þetta bjargast. Ársreikningarnir og áramótastaðan er alltaf notuð við þessi möt. Þess vegna er svo mikilvægt að krónan verði orðin sterkari fyrir áramót.