,,Ég fagna því að ríkisstjórnin ætli að gera þetta en ríkið verður um leið að átta sig á því að það eru fleiri í landinu sem eru að selja þjónustu á sviði leigumiðlunar,” sagði Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri husaleigu.is, þegar hann var spurður út í nýtt frumvarp félagsmálaráðherra um breytingar á lögum um húsnæðismál.

Svanur sagði að þau fyrirtæki sem eru rekin sjálfstætt á sviði húsaleigu hljóti að óttast að framkvæmd laganna leiði til þess að samkeppnisstaða þeirra skekkist gagnvart ríkisreknu fyrirtæki á því sviði eins og megi lesa út úr frumvarpinu. Það getur því reynst erfitt að meta hverig þessar vinnureglur eiga að vera.

Samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra verður heimilt að lengja umtalsvert lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika. Þá verður Íbúðalánasjóði heimilt að leigja eða fela öðrum að annast leigu húsnæðis sem sjóðurinn hefur leyst til sín á nauðungarsölu.

Svanur sagðist vera sammála því markmiði laganna að gefa fólki tækifæri á að leigja húsnæðið sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín. Það er það sem þarf að gera enda má gera ráð fyrir að þúsundir einstaklinga lendi í þessari stöðu.