Elsa Lára Árnadóttir, þingmaður Framsóknarflokks, telur að sala bjórs á bensínstöðvum Olís um verslunarmannahelgina geti stuðlað að auknum ölvunarakstri.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Olís áformaði að selja Tuborg bjór á bensínstöðvum félagsins í Norðlingaholti, Selfossi og Hellu.

„Við höfum alltof oft séð fréttir af því, meðal annars á stórum ferðamannahelgum, að fólk hafi verið tekið undir áhrifum áfengis undir stýri. Ég er afar hrædd við það ef að það verður auðveldara að nálgast áfengi við þjóðveginn um þessa helgi," segir Elsa í samtali við fréttastofu RÚV.

Á nýafstöðnu þingi mælti Elsa fyrir þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að lækka leyfilegt hámark vínanda í blóði úr hálfu prómilli í 0,2 prómill.

„Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki til þess að fólk setjist undir áhrifum áfengis undir stýri. Eftir einn ei aki neinn," er haft eftir Elsu Láru sem telur áformin um sölu bjórs ekki hugsuð til enda.