Persónuvernd segir auknar heimildir Seðlabankans til söfnunar persónuupplýsingum í þeim tilgangi að stemma stigu við brotum á gjaldeyrishöftum ekki eiga neinn sinn líka í hinum vestræna heimi.

Persónuvernd er á móti upplýsingaöfluninni í umsögn við frumvarp til laga um breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem stofnunin sendir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í gær. Í umsögninni kemur m.a. fram að ígrunda þurfi hvert skuli stefna í slíkri upplýsingasöfnun og meta hvaða persónuupplýsinga fjármálastofnunum sé í raun nauðsynlegt að skrá og láta Seðlabankanum í té.

„Það er verðugt umhugsunarefni hvort svo sé komið að upplýsingasöfnun Seðlabanka Íslands fái ekki samrýmst nútíma sjónarmiðum um einkalífsrétt í lýðræðisríki,“ segir í umsögninni og bent á að ekki aðeins sé fyrirhugað að auka eftirlit með einstaklingum vegna gjaldeyrishafta heldur jafnvel fella það viðmið niður. Engin skýr viðmið eigi að koma í staðinn.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, um málið. Hann segir að vel verði farið yfir ábendingar Persónuverndar í nefndinni og bætir jafnframt við að mikilvægt sé að Seðlabankinn hafi ríkar eftirlitsheimildir sæmbærilegum þeim sem Fjármálaeftirlitið hafi. Á sama tíma gerir hann ráð fyrir að leitast verði við að gæta meðalhófs í lagasetningunni.