Sjálfstætt starfandi skólar eiga rétt á að fá framlög frá sveitarfélögum fyrir hvern nemanda og nemur framlagið 75% af meðalkostnaði við hvern grunnskólanemanda á landinu. Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi skóla og er heimilt að hafa ákvæði í samningunum um hámarksfjölda þeirra nemenda sem greitt er með.

Slíkt ákvæði er í þjónustusamningum Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi skóla, sem gerðir voru í fyrra. Reykjavík er ekki eina sveitarfélagið sem hefur slíkar takmarkanir á nemendafjölda en vísbendingar eru um að hámarkið, sem jafngildir 110% af mesta nemendafjölda í hverjum skóla á síð­ustu 10 árum, sé íþyngjandi fyrir vissa sjálfstætt starfandi skóla í borginni þrátt fyrir að tekið sé fram að ákvæðið eigi ekki að vera íþyngjandi.

Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, segir að í haust hafi litið út fyrir að skólinn þyrfti að vísa barni frá skólanum vegna hámarksins. Foreldrar barnsins óskuðu eftir því að það fengi pláss í alþjóðadeild skólans en Reykjavíkurborg ætlaði ekki að greiða með barninu. Ef barnið hefði hins vegar farið í Alþjóðaskólann í Garðabæ hefði borgin greitt með nemandanum. Málinu lauk þannig að borgin ákvað að túlka ákvæðið um há­ marksfjölda með hliðsjón af heildarfjölda nemenda í Landakotsskóla frekar en fjölda nemenda í alþjóðadeild skólans. Þá skapaðist svigrúm og greiðir borgin nú með viðkomandi nemanda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .