Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segist ótta vera til staðar við að hækkanir á heimsmarkaðsverði matvæla verði viðvarandi og að ekki sé um tímabundið skot að ræða eins og árið 2008. Hann segir þennan ótta rökstuddan með aukinni eftirspurn umfram framboð, m.a. vegna fólksfjölgunar í heiminum og lífskjarabreytingu í tígrishagkerfum Asíu. Þetta kemur fram í fréttaskýringu um hrávöruverð og innlent matvælaverð, þar sem rætt er við Bjarna.

Hann segir jafnframt að áhrif hækkana undanfarinna vikna á mörkuðum séu ekki komin fram í matvælaverði á Íslandi, m.a. þar sem innflytjendur veigri sér við því að fleyta hækkunum út í verðlagið vegna veikrar eftirspurnar í hagkerfinu. Mismunandi sé hvar sársaukamörkin séu en fyrr eða síðar verði innflytjendur að hækka vöruverð.

Eins og fram kemur í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í gær tók verð á hveiti, maís og soja að lækka mikið í upphafi vikunnar. Verð á þessum vörum hækkaði lítillega á ný í fyrradag en tók svo að lækka aftur í gær, þó ekki væri lækkunin jafnskörp. Þá hefur verð á kaffi lækkað undanfarna tvo daga.