Bankasýsla ríkisins, sem fer með 98% hlut ríkisins í Landsbankanum, kom ekki að ákvarðanatöku bankans hvað varðar staðsetningu og byggingu nýrra höfuðstöðva. Slík ákvörðun er á forræði bankaráðs Landsbankans líkt og kveðið er á um í lögum. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í samtali við Morgunblaðið .

„Hlutafélagalögin segja að stjórn fyrirtækis fari með æðstu stjórn þess. Þannig fer bankaráð Landsbankans með æðstu stjórn bankans. Það er því innan ákvörðunarsviðs bankaráðsins að taka þessa ákvörðun. Þetta er ekki ákvörðun sem er borin undir hluthafafund,“ segir Jón Gunnar.

Sjálfur segist hann hafa viljað að aðrir möguleikar hvað staðarval nýrra höfuðstöðva bankans varðar hefðu verið skoðaðir. Nefnir hann í því samhengi Tollhúsið við Tryggvagötu en þeim möguleika hafi tollstjóri hins vegar hafnað og möguleikinn því ekki kannaður nánar.

Jón Gunnar segist óttast kostnaður við nýjar höfuðstöðvar geti farið fram úr áætlun, verkefnið geti tafist og það taki of mikinn tíma frá stjórnendum bankans. Því muni Bankasýslan þurfa að sannreyna fullyrðingar bankans um hagkvæmni ákvörðunarinnar.