Erna Gísladóttir, forstjóri BL, segir að mikið megi lesa í hagsveiflur út frá því hvernig bílasala gengur fyrir sig. Hún segir í samtali við Kjarnann að miklir óvissutímar ríki núna og það sé lægð handan við hornið ef ekkert verður að gert.

„Í stuttu máli sést það á gögnum um sögulega þróun að það kemur alltaf fram nokkrum mánuðum fyrr í bílasölunni sem síðan kemur skýrar fram annars staðar í hagkerfinu síðar. Þetta á bæði við um uppsveiflu og niðursveiflu. Ef bílasala minnkar mikið og hratt er það skýrt merki um óvissu og niðursveiflu,“ segir Erna í samtali við Kjarnann . Síðan geti tíðarandinn og tískusveiflur líka haft mikil áhrif. Erna bendir á að árið 2001 hafi þáverandi forsætisráðherra til dæmis sagt að við ættum að spara gjaldeyri og vera ekki að kaupa nýja bíla. Í kjölfarið hafi bílasala hrunið.

„Ég hef af því áhyggjur, ekki síst í ljósi þess hvað sagan segir okkur, að við séum núna á miklum óvissutímum og að það sé lægð handan við hornið ef ekkert verður að gert. Í síðustu viku voru 77 nýir bílar skráðir á öllum markaðnum. Við erum þokkalega sátt ef nýskráningarnar eru í kringum 120. Við finnum fyrir því að fólk sé að bíða, þau skilaboð koma meðal annars í gegnum verkstæðin. Fólk er frekar tilbúið að fresta endurnýjun og virðist vonast eftir betri tíð eins og málin standa núna,“ segir Erna við Kjarnann.