Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á vaxtaákvörðunarfundi á miðvikudagsmorgun að hækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru því 4,5%. Vextirnir höfðu verið óbreyttir í 16 mánuði og höfðu ekki hækkað í rétt rúm þrjú ár.

Nefndin sagði helstu ástæður hækkunarinnar hækkandi verðbólguvæntingar og meiri hagvöxt en spáð hafði verið. Aukin verðbólga síðustu mánuði hafi auk þess lækkað raunvexti Seðlabankans umfram það sem æskilegt geti talist. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á blaðamannafundi að óvissa vegna kjarasamninga væri „eins og farg yfir öllu“, sem ekki verði svipt í burtu fyrr en niðurstaða næst í kjaraviðræðum.

Viðbrögðin stóðu ekki á sér. Samtök atvinnulífsins sögðu hækkunina ótímabæra, eðlilegra hefði verið að Seðlabankinn gæfi frá sér harðan tón, en héldi vöxtum óbreyttum. Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsti yfir „gríðarlegum vonbrigðum“ með ákvörðunina og sagði hana gera komandi kjaraviðræður flóknari og erfiðari“. Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, sagði þetta mikil vonbrigði, og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur Eflingar, sagði ákvörðunina ganga gegn allri venjulegri hagstjórn.

Nefndin neyðst til að sýna tennurnar
Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir það ljóst að miðað við þróun verðbólguvæntinga nýverið hafi aldrei verið í boði fyrir peningastefnunefnd að gera ekki neitt. Hann segir tóninn í nefndinni þó hafa verið nokkuð tvíræðan. „Tónninn var harður, eins og hann hefur verið, en á sama tíma kannski pínu afsakandi. Hún er svolítið að segja að hún hafi neyðst til að gera þetta.“ Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, tekur í sama streng, og segir nefndina hafa orðið að sýna tennurnar. „Ég held að seðlabankinn hafi óttast að tapa trúverðugleika, miðað við hvað verðbólguhorfur hafa versnað snögglega, ef hann brygðist ekki við með einhverjum hætti. Þeir hafa þá lögboðnu skyldu að halda verðbólgu innan marka. Þetta ætti því ekki að koma neinum á óvart, hvort sem það eru verkalýðsfélög, atvinnurekendur eða aðrir.“

Ávísun á óðaverðbólgu og skuldakreppu
Helstu ástæður versnandi verðbólguhorfa segir hann vera gengi krónunnar, afkomu ferðaþjónustunnar og kjaraviðræður. „Allt þetta hefur sín áhrif á verðbólguvæntingar. Þetta eru á vissan hátt ósamrýmanlegar kröfur hjá verkalýðsfélögunum, að fara fram á mikla hækkun launa og lækkun vaxta á sama tíma. Það er bara ávísun á óðaverðbólgu og skuldakreppu hjá heimilunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .