Ná verður fram samkomulagi um lækkun á laxveiðileyfum, að sögn Óðins Sigþórssonar, formanns Landssambands Veiðifélaga, í skugga þess að sala á laxveiðileyfum hefur lækkað um 30% á milli ára, samkvæmt nýrri markaðsúttekt sem unnin var fyrir Landssamband stangaveiðifélaga (LS). Í blaðinu er vitnað til yfirlýsingar LS en þar segir að ögurstund sé runnin upp á stangaveiðimarkaðnum og tekið er fram að nauðsynlegt sé að setjast niður með landeigendum til að bjarga því sem bjargað verður. „Kreppan er núna fyrst að koma fram á þessum markaði og á sama tíma er Evrópa í sárum. Ofan á þetta allt bættist mesta hrun sem orðið hefur í íslenskri laxveiði síðasta sumar. Veiðileyfi á Íslandi eru einfaldlega orðin of dýr í samanburði við hágæðalaxveiðileyfi í heiminum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ég verð að segja alveg eins og er að ég er dálítið undrandi yfir þessu. Þetta, ásamt mörgu öðru sem komið hefur úr þessum ranni síðan í haust, er til þess fallið að hafa áhrif á markaðinn og þá til þess verra,“ segir Óðinn í samtali við blaðið og bætir við að hún skemmi fyrir öllum.

„Mér finnst ekki rétt að fara fram með þessum hætti. Ef menn eru í erfiðleikum þá er rétti vettvangurinn að ræða við þá aðila sem þeir hafa gert samninga við. Þessi mál, eins og önnur viðskipti, eiga að vera á milli leigusalans og leigutakans,“ segir hann.