*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 16. júní 2019 15:32

Óttast að stefnan magni sveifluna

Greinendur óttast að einföld afkomuregla í fjármálastefnu stjórnvalda kunni að magni hagsveifluna upp og niður.

Kristján Torfi Einarsson
Fjármálaráðuneytið undirbýr sig nú fyrir breytta tíma m.a. með því að gera breytingar á fjármálastefnu stjórnvalda.
Haraldur Guðjónsson

Tillaga um breytingar á fjármálastefnu stjórnvalda er nú til meðferðar á Alþingi, en í umsögnum um tillöguna má sjá að greinendur hafa ýmsar athugasemdir. Það er ekki einvörðungu vanmat á niðursveiflunni sem heldur vöku fyrir greinendum sem veitt hafa stefnunni og áætluninni umsögn. Samtök atvinnulífsins segja til að mynda megingalla á fjármálastefnunni vera að afkomuviðmið hennar taki ekki mið af stöðu hagkerfisins. 

Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur og forstöðumaður efnahagssviðs SA,segir mikilvægt að stjórnvöld miði við afkomu sem sé hagsveifluleiðrétt í stað þeirrar einföldu afkomureglu sem nú er við lýði.  

„Þannig fyrirkomulag skuldbindur stjórnvöld til að skila meiri afgangi í miklum hagvexti og skapar líka meira rými til aukins slaka í niðursveiflu eins og nú er raunin. Ljóst er að ef afkomureglan hefði verið hagsveifluleiðrétt þá hefði hún skuldbundið stjórnvöld til að skila meiri afgangi á uppgangstímanum. Eðli máls samkvæmt er auðveldara að fylgja einfaldri afkomureglu þegar tekjustofnar vaxa hratt líkt og raunin hefur verið undangengin ár. En þá væri  svigrúm stjórnvalda til að bregðast við niðursveiflunni mun meira nú og ekki hefði verið þörf á nýrri fjármálastefnu. 

Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt ítrekað mikinn útgjaldavöxt hins opinbera síðustu ár og hvatt til þess aðhaldssemi á uppgangstímum en því miður var raunin önnur og fyrir vikið er nú uppi óvissa um hvaða svigrúm til aðgerða stjórnvöld muni hafa í niðursveiflunni framundan,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir. 

Haraldur Benediktsson segir að hagsveifluleiðrétt afkomuregla hafi verið til umræðu í fjárlaganefndinni. Afstaða hafi ekki verið tekin um málið í nefndinni að sinni þar sem stjórnvöldum hafi verið tryggð nægjanlegt svigrúm til að mæta þeim samdrætti sem hagspár reikna með. 

Efasemdum um ágæti fjármálastefnunnar hefur hins vegar ekki verið svarað. Ljóst er að afkomureglan kom ekki í veg fyrir þensluhvetjandi útgjaldaaukningu í góðæri síðustu ára og því ekki að ósekju að áhyggjur eru uppi um að einföld afkomuregla komi til með að ýkja niðursveifluna framundan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér