„Ef Trump sigrar í Iowa er góður möguleiki á því að hann verði óstöðvandi, og verði tilnefndur sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins,” sagði Ted Cruz í myndbandi sem Christian Broadcasting Network deildi.

Stuðningsmenn Cruz eru farnir að verða áhyggjufullir. Ef Donald Trump tekst að fanga hug og hjörtu Repúblikana í Iowa er góður möguleiki á því að skriðþunginn sem hann hefur aflað sér í öðrum fylkjum leiði til þess að tilnefning hans til framboðs í flokknum verði gulltryggð.

Talsverðir skruðningar hafa orðið í baráttunni vestanhafs eftir að Trump lýsti því yfir að hann hygðist neita að mæta í rökræðu Fox News sem sjónvarpað verður í kvöld. Þetta gerir hann vegna þess að hann telur spyril Fox, Megyn Kelly, vera hlutdræga.

Í kjölfar þessa bauð Cruz honum í sérstaka rökræðu milli þeirra tveggja - maður á mann. Cruz hefur mátt þola talsvert níð frá Trump, þar sem hann hæðist að honum fyrir að vera fæddur í Kanada og telur hann ekki kjörgengan til embættis forseta Bandaríkjanna.

Forskotið sem Cruz hafði yfir Trump í Iowa er nú horfið, en Trump er 8 prósentustigum yfir honum samkvæmt skoðanakönnunum - ef til vill einmitt vegna árása Trump varðandi ríkisborgararéttinn. Þá hefur Trump skýrt forskot á Cruz í fylkjum New Hampshire, South Carolina.

Repúblikanar í New Hampshire, Iowa og South Carolina ganga til kosninga um tilnefningu til forsetaframbjóðanda 1. mars næstkomandi.