Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingar, g erði breytingu á upplýsingalögum að umtalsefni sínu á Alþingi í dag. Í breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands , sem er ætlað að veita ráðherrum auknar heimildir til að flytja ríkisstofnanir á milli landshluta, er gert ráð fyrir breytingu á tveimur ákvæðum upplýsingalaga samhliða.

Sú breyting sem Róbert gerði athugasemd við er á 1. málslið 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga , samanber 10. gr. breytingartillögunnar.

Í umræddu ákvæði upplýsingalaga segir nú:

Við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna ber stjórnvöldum, og öðrum sem lög þessi taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.

Eftir breytingu myndi að óbreyttu standa:

Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.

„Ég velti fyrir mér hvort það sé verið að búa þannig í haginn að það sé verið að safna saman persónugreinanlegum upplýsingum um óskir, beiðnir og samtöl einstaklinga við ríkið. Þetta finnst mér vera áhyggjuefni," sagði Róbert Marshall.