Hættan á yfirvofandi gjaldþrotahrinu kallar, að mati Samtaka iðnaðarins, á að menn séu á varðbergi gagnvart kennitöluflakki, en það færist í vöxt í vondu árferði. Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Creditinfo Ísland spáði því að yfir þúsund fyrirtæki myndu lenda í verulegum fjárhagserfiðleikum næstu tólf mánuði, árangurslausu fjárnámi og gjaldþrotum.

„Með niðursveiflu í hagkerfinu gæti skollið á hrina gjaldþrota og þá skapast jafnframt hætta á fjölgun kennitöluflakkara, sem að sjálfsögðu kallar á átak gegn þeim,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Samtökunum sé hins vegar óheimilt að búa til „svartan lista“.

„Okkur er þó þröngur stakkur sniðinn því að okkur er meinað að skrá þá sem hafa á sér óorð. Við veltum því mjög fyrir okkur að setja upp nokkurs konar svartan lista, þar sem skráðir væru aðilar sem ábendingar hefðu borist um að stæðu ekki í skilum, og fólki væri bent á að vera á varðbergi og stunda aðeins staðgreiðsluviðskipti við viðkomandi. Persónuvernd bannar okkur þetta hins vegar og því er erfitt um vik,“ segir Jón Steindór.

Samtök iðnaðarins stóðu fyrir átaki gegn kennitöluflakki fyrir nokkrum misserum og segir Jón Steindór um að ræða eilífðarmál. „Kennitöluflakk er viðvarandi vandamál og nú, þegar kreppir að fyrirtækjum, er aukin hætta á kennitöluflakki en það skekkir samkeppnisstöðu og skaðar markaðinn. „Við höfum oft gagnrýnt fjármálastofnanir, sem hafa núorðið allsherjar veð í fyrirtækjum, lager þeirra og öðru, fyrir að hirða það sem er nýtilegt þegar að kreppir og skilja eftir rústir. Þetta er ójafn leikur,“ segir hann.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .