Alþjóðabankinn telur að talsverð hætta sé á auknu útflæði fjármagns frá nýmarkaðsríkjum í ljósi hækkandi vaxtastigs meðal þróaðra landa. Mikið fjármagn hefur flætt inn í hagkerfi nýmarkaðsríkja á síðustu árum þar sem lítill hagvöxtur hefur mælst í þróuðum ríkjum undanfarin ár. Auk þess hafa opinberar aðgerðir til að styðja við hagkerfin, á borð við kaup Seðlabankans í Bandaríkjunum á eignum þarlendis, haldið vaxtastigi lágu. Varar Alþjóðabankinn við því að talsverð hætta á útflæði geti skapast ef vextir hækka hratt á ný meðal þróaðra landa.

Telur Alþjóðabankinn að ef væntingar markaðsaðila um enn hækkandi vaxtastig meðal þróaðra landa ágerast gæti fjármagnsinnflæði til nýmarkaðsríkjanna dregist saman um allt að 80% yfir nokkurra mánaða tímabil. Slík þróun gæti haft alvarleg áhrif á fjármálakerfi nýmarkaðsríkja og jafnvel leitt til efnahagskreppu á svæðinu.