Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er með ítarlegum hætti fjallað um óvænta hlutafjáraukningu Play í byrjun mánaðar. Í umfjölluninni er meðal annars rætt við Egil Almar Ágústsson, sérfræðing í flugrekstri, en hann segir ljóst að Play þurfi að auka tekjur sínar svo rekstur félagsins nái að verða sjálfbær.

Óhjákvæmilega bregður nafni hins sáluga Wow air reglulega fyrir er Play er til umræðu, enda er hluti stofnenda og starfsmanna Play fyrrverandi starfsmenn Wow. Heyrst hafa áhyggjur af því að Play verði gjaldþrota, líkt og forverinn. Egill Almar kveðst alls ekki geta tekið undir þær áhyggjur, enda sé Play á allt öðrum stað en Wow var undir það síðasta.

„Félagið er ekki með breiðþotur í flotanum og er ekki að flækja reksturinn eins og Wow gerði. Stjórnendur Play vita nákvæmlega hvað fór úrskeiðis hjá Wow og því mjög ólíklegt að Play falli í sömu gryfju og Wow. Að sama skapi vinnur með Play að félagið er skráð á markað með tilheyrandi skyldu um reglulega upplýsingagjöf um fjárhagstöðu félagsins. Þá er Play með breiðan eigendahóp, meðan Wow var alfarið í eigu eins aðila.“

Viðtalið er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.