Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur að jákvæð teikn séu á lofti hvað varðar aukna þátttöku erlendra sem og innlendra fjárfesta á innlenda hlutabréfamarkaðnum. Magnús telur að möguleg fækkun fyrirtækja í Kauphöllinni sé ekki óeðlileg heldur hluti af því að vera á „dýnamískum“ markaði. Hann viðurkennir að ekki hafi verið mikið um nýskráningu á markaði en hann telur að það muni breytast fljótlega. Ekki er útilokað að nýtt fyrirtæki verði skráð í Kauphöllina fyrir áramót.

Fyrirtækjum í kauphöllinni kann að fækka eitthvað á næstunni. Leigufélagið Heimavellir fór af markaðnum fyrr á þessi ári. Þar áður var Össur síðast afskráð hér í Kauphöll Íslands árið 2017. Enn fremur hafa stærstu hluthafar tveggja kauphallarfyrirtækja boðað yfirtökutilboð.

Í síðasta mánuði boðaði Samherji yfirtökutilboð í Eimskip í annað sinn á þessu ári er Samherji eignaðist yfir 30% hlut í félaginu. Fyrr í nóvember boðuðu síðan fjárfestar í Skeljungi yfirtökutilboð í félagið en samanlagt eiga þeir ríflega 36% hlut. Samherji hyggst ekki afskrá Eimskip en ekki hefur komið í ljós hve stór hluti eigenda mun samþykkja téð tilboð í Eimskipi og Skeljungi. Því er óljóst hvort Skeljungur verður áfram á markaði eður ei. TM og Kvika banki, sem bæði eru skráð í Kauphöllina, hafa einnig tilkynnt um samrunaviðræður og ganga þær vel að þeirra sögn.

Spurður út í áhrif sameiningar Kviku banka og TM vísar Magnús því á bug að fækkun kauphallarfyrirtækja þurfi að vera neikvæð fyrir markaðinn. „Þrátt fyrir að fyrirtækjum myndi fækka tel ég sameininguna jákvæða fyrir markaðinn. þegar verið er að reyna að fá erlenda fjárfesta og þegar flokkunarfyrirtæki, líkt og MSCI, eru að flokka markaði er ekki einungis horft til heildarstærðar markaðarins heldur einnig hversu mörg stór fyrirtæki eru. Ég myndi segja að stóru fyrirtækin séu oft segullinn sem dregur að.“

Möguleg vatnaskil í þátttöku erlendra fjárfesta sem og einstaklinga

Magnús telur að það séu undirliggjandi þættir sem muni vinna með hlutabréfamarkaðnum á næstu misserum. Í því samhengi nefnir Magnús fjögur atriði, tvö sem eflt geta þátttöku almennings hérlendis og tvö sem ýta undir þátttöku erlendra fjárfesta.

Til að mynda liggur fyrir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að skoða leiðir til þess að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. Magnús telur aðgerðina mikilvæga en hún er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var síðla í september.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .