Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, vill kanna hvort skynsamlegt sé að sameina Íbúðalánasjóð og Landsbankann eða setja slitastjórn yfir sjóðinn og selja eignir hans.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir vanda sjóðsins ekki hverfa við að Landsbankinn kaupi hann. Vandinn sé til staðar og tjónið sem verði komi fram eftir sem áður. Frá þessu var greint í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Sigurður bendir á að horfa verði til samkeppnissjónarmiða í þessu tillti. Hann óttast fákeppni.

„Ef Landsbankinn tekur yfir Íbúðalánasjóð sem er með yfir 50 prósent af útistandandi húsnæðislánum þá er komin upp sú staða að það eru bara þrír stórir lánveitendur og einn þeirra með um það bil 60 prósent markaðshlutdeild. Ég er ekki viss um að það komi neytendum til góða," segir Sigurður í viðtali við Rúv.

Sigurður segir að samkvæmt nýrri stefnumótun verði sjóðurinn hættur að skila tapi frá ári til árs árið 2018. Sjóðurinn þurfi að losna við fullnustueignir, minnka þurfi vanskil og breyta fjármögnunarkerfi sjóðsins. Unnur Gunnardóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, telur að viðskiptamódel sjóðsins dugi ekki. Nauðsynlegt sé að horfast í augu við það að rekstur sjóðsins  í óbreyttri mynd dugi ekki til að afla tekna til að greiða af þeim skuldbindingum sem á sjóðnum hvíli.

Á fyrri hluta ársins var eigið fé Íbúðalánasjóðs, sem þegar hefur fengið um 40 milljarða króna frá ríkissjóði, minna en reglur gera ráð fyrir. Markmið sjóðsins er það sé 5 prósent en það er 2,5 prósent.