Íslensku lífeyrissjóðirnir eru í mjög þröngri stöðu þegar kemur að nýjum fjárfestingum. Árleg fjárfestingarþörf þeirra er um 100- 130 milljarðar eftir því sem fram kom í máli Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðunum verði tímabundið leyft að fjárfesta í óskráðum bréfum fyrir 25% af hreinni eign sinni í stað 20%.

Hrein eign sjóðanna nam um 2.433 milljörðum í lok janúar á þessu ári. Ef 5% til viðbótar af hreinni eign sjóðanna færi inn í óskráð verðbréf væri um að ræða eignir fyrir um 121 milljarð íslenskra króna. Fjármálaeftirlitið hefur áhyggjur af þessari ráðstöfun og segir mikilvægt að stjórnvöld komi til móts við lífeyrissjóðina og geri þeim kleift að fjárfesta erlendis. Það gæti sett verulegan þrýsting á gengi krónunnar miðað við ástandið á gjaldeyrismarkaði í dag.

Í umsögn Seðlabanka Íslands með frumvarpinu eru þó ekki gerðar athugasemdir við þessa tímabundnu heimildaraukningu og er mat bankans að við núverandi aðstæður sé rétt að auka þessa heimildlífeyrissjóðanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.