Ráðgjafaráð bandaríska seðlabankans segir vöxt námslána bandarískra stúdenta líkjast þróun fasteignabólunnar. Fasteignamarkaðurinn var sem kunnugt er einn áhrifaþátta við efnahagshrunið vestra. Námslán hafa að sögn ráðgjafaráðsins vaxið í eina billjón Bandaríkjadala (e. trillion) sem jafngildir 118.906 milljörðum íslenskra króna. Frá þessu greinir á fréttavef USA today. Ráðgjafaráðið samanstendur af fjórtán einstaklingum frá bandarískum bönkum sem hittast ársfjórðungslega til að ráðleggja seðlabankanum.

Námslán eru nú hærri en kreditkortaskuldir bandaríkjamanna og verður það til þess að ráðgjafarnir líkja þróuninni við fasteignabóluna fyrir hrun. Rétt eins og mikill vöxtur í húsnæðislánum þrýsti upp fasteignaverði segja þeir aukið framboð námslána þrýsta skólagjöldum upp.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri, vísar því hins vegar á bug að þessari þróun megi líkja við fasteignamarkaðinn og telur námslánin ekki hafa sama þjóðhagslega mikilvægi. Þetta skýrir hann meðal annars með því að fjármálastofnanir eigi ekki lánin heldur bandarísk yfirvöld.