Hlutabréf lánafyrirtækisins Countrywide Financial féllu um 13%  í dag vegna ótta um að félagið stefni í gjaldþrot að því er kemur fram á netsíðu BBC. Fyrirtækið er eitt af stærri veðlánafyrirtækjum Bandaríkjanna og hefur það átt í greiðsluerfiðleikum undanfarið í kjölfar óróleikans á íbúðalánamarkaði þar í landi.

Greiningardeild bandaríska fjárfestingabankans Merill Lynch hefur ráðlagt viðskiptavinum sínum að selja bréf sín í Countrywide Financial. Einn af greiningarmönnum bankans, Kenneth Bruce, segir að ef fjárþurrð verður á veikum markaði sé fyllsta ástæða til að óttast gjaldþrot Countrywide Financial. Fyrirtækið hefur lent í vandræðum undanfarið vegna þess að hækkandi vextir hafa gert fólki erfiðara að standa í skilum segir í frétt BBC.

Hlutabréf félagsins lækkuðu um 3,17 dollara í dag sem er mesta fall á bréfum félagsins síðan hrun varð á mörkuðunum 1987. Bréf félagsins hafa lækkað um 50% það sem af er ári.

Viðvörun Merrill Lynch kemur degi eftir að Contrywide Financial greindi frá því að vanskil á lánum hefðu aukist í júlí og hefðu ekki verið meiri síðan 2002.

Á markaði hafa verið vangaveltur um að Contrywide ætti erfitt með að fjármagna sig til skamms tíma sem gæti gert fyrirtækinu óleyft að halda rekstrinum gangandi.