Formenn miðjuflokkanna svokölluðu, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, funduðu með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreifingarinnar - græns framboðs á miðvikudag til að fá stuðning við ríkisstjórn undir forystu Benedikts Jóhannessonar formanns Viðreisnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Miðjuflokkarnir sammæltust um stuðning við Benedikt

Sama daga fékk Bjarni Benediktsson stjórnarmyndunarumboðið frá forseta Íslands, en það hefur vakið athygli að formenn miðjuflokkanna, þeir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé farið saman á fund hans.

Á mánudag hafði Óttarr stutt það á fundi sínum með forsetanum að Benedikt fengi stjórnarmyndunarumboðið.

Bandalag yfir miðjuna frá vinstri til hægri

Ein þeirra hugmynda sem var viðruð á fundinum með Katrínu var að mynduð yrði ríkisstjórn flokkanna þriggja auk Sjálfstæðisflokks undir forystu Benedikts Jóhannessonar.

Í gær funduðu Katrín og Bjarni í nærri tvo tíma, en ekki virðist sem flokkarnir hafi náð saman. „Það er langt á milli þessara flokka málefnalega og við fórum yfir skattamál, menntamál og heilbrigðismál,“ sagði Katrín í Fréttablaðinu í dag.

Hissa á samstarfi við Viðreisn

„Það var mikið að ræða enda langt á milli. Þetta voru bara rökræður um þetta og engin niðurstaða úr því.“ Katrín mun hafa rætt við formenn allra flokkanna.

Ótti virðist vera meðal fyrrverandi þingmanna Bjartrar framtíðar við því að við kosningarnar hafi flokkurinn færst til hægri, en Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að margir innan flokksins séu hissa á samstarfinu við Viðreisn.