Sérfræðingar óttast að nýlegar árásir í Lundúnum geti leitt til þess að hundruð þúsunda ferðamanna muni ákveða að ferðast ekki til Bretlands á komandi misserum .

Greiningarfyrirtækið Euromonitor spáir því til að mynda að um 285.000 manns muni veigra sér við því að ferðast til Bretlands og að eftirspurn eftir ferðum til landsins muni ekki jafna sig að fullu af áföllunum fyrr en árið 2020. Segja sérfræðingar að ímynd Bretlands sem áfangastaðar hafi orðið fyrir verulegum hnekkjum og að ferðamenn óttist nú um öryggi sitt.

Ferðaþjónusta drógst saman um 12% í París

London er um þessar mundir þriðji vinsælasti áfangastaður heims og þangað leggja um 19 milljónir ferðamenn leið sína ár hvert. Þá hefur veikt gengi pundsins aukið enn á vinsældir borgarinnar sem er nú ódýrari áfangastaður en áður.

Sérfræðingar minna hinsvegar á að atburðir líkt og þeir sem hafa átt sér stað að undanförnu geti haft mikil áhrif á ferðaþjónustu líkt og sannaðist í París í kjölfar hryðjuverkanna í borginni í nóvember 2015. Í kjölfarið af þeim drógust erlendar heimsóknir til borgarinnar saman um 12% og nú meira en ári síðar hefur ferðaiðnaðurinn ekki enn að fullu rétt úr kútnum.