Edward Huijbens, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála, óttast að sífellt meiri neikvæðni í garð erlendra ferðamanna geti skaðað ímynd Íslands. Hann segir að þó vissulega sé skortur á framtíðarsýn í ferðaþjónustunni, sé það helst peninga í uppbyggingu sem vanti. Þetta kom fram í viðtali við hann í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Það er alltaf að ágerast það sem maður sá strax í byrjun,“ segir Edward. „Að ef vöxturinn héldi áfram með því lagi sem hann er, og meðan uppbyggingin héldi áfram með því lagi sem hún er, að þá myndu óhjákvæmilega verða árekstrar og vandræði.

Það sem ég hef meiri áhyggjur af er að þessir árekstrar og þessi vandræði, þau eru að skapa þessa neikvæðu umræðu og neikvæðni gagnvart gestunum okkar. Það er alveg sérstaklega hættulegt þegar við erum að tala um fyrirbæri eins og ferðaþjónustu,“ segir hann og bendir á að ólíkt þorski, sem er nokkurn veginn sama hvernig hann er verkaður þegar búið er að sækja hann, skipti það ferðamenn miklu máli hvernig tekið er á móti þeim.

Jói gröfukall mætir á Bobcat

„Við erum alltof gjörn á það að redda þessu bara, redda málum. Sveitarfélögin snúa sér að Jóa gröfukalli í sveitinni og segja: heyrðu, geturðu ekki bætt aðeins í svæðið og reddað þessu, getum við ekki skellt einum stíg niður? Svo mætir maður á Bobcat og græjar þetta bara,“ segir Edward.

Reddingar valdi meiri skaða þegar fram í sækir. Stígar sem eru rangt gerðir valdi skaða á náttúrunni. „Og svo hitt auðvitað að ef þú breytir ásýnd staða þannig að þarna verði bara eitt risastórt malbikað stað með bráðabirðaklósettum, þá er það ekki lengur þessi náttúruupplifun sem er auglýst í markaðssetningu landsins.“

Ungt fólk nenni ekki að tala við túrista

Ungt fólk í Reykjavík, til dæmis þeir sem vinna á kaffihúsum, nenni ekki lengur að tala við túrista. Menningin sé á leiðinni út á Granda. „Eigum við að ákveða einhverja staði sem eru túristastaðir og við nennum ekki að fara á?“ spyr Edward.

Edward segir að vöxturinn í ferðaþjónustu hafi verið fyrirsjáanlegur, þó hann hafi verið meiri en búist var við. Hin mikla aukning hafi byrjað árið 2010 og nú séu 5 ár síðan. Hann segir að það vanti miklu heildrænni sýn hvað varðar landið allt, hvert á að beina umferðinni.

Umræðan er árstíðabundin

Þó sé grunnur að verða til núna. Það sem vanti fyrst og fremst núna séu peningar. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sé ekki nógu stór til að standa undir því sem þarf, en peningarnir séu hins vegar til í kerfinu.

Edward bendir á að umræðan sé árstíðabundin. Íslendingar lendi í sömu stöðu hvert einasta vor, þegar við áttum okkur á því að við stöndum frammi fyrir áskorunum í ferðamannamálum.