Flestir finna fyrir einhverjum kvíða þegar tala þarf fyrir framan hóp fólks og raunin er sú að mikill fjöldi fólks segir ræðuhöld sinn versta ótta samkvæmt Helenu Jónsdóttur, sálfræðingi hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Í ljósi þess hve kynningar og ræðuhöld eru orðin fyrirferðarmikil í vinnuskyldu stjórnenda má ætla að ræðukvíði hrjái fleiri en fyrr. „Fólk setur ræðukvíða ofar en dauðann á lista yfir sinn mesta ótta og er það algjörlega órökrétt,“ segir Helena og vitnar í Jerry Seinfeld sem sagði að maður væri betur kominn í kistunni í sinni eigin jarðaför heldur en við ræðuhöld.

„Með því að halda ræðu erum við viljandi að draga að okkur athygli og setjum okkur í þá stöðu þar sem fólk væntir þess að við segjum eitthvað að viti. Það sem fólk óttast mest er að mistakast herfilega,“ segir Helena. Hún segir ræðumenn gera kröfur til sjálfs sín um að mismæla sig ekki, roðna ekki og séu þeir stressaðir megi áheyrendur alls ekki verða vitni af því. „Hvað gerist ef við hugsum svona? Við verðum stressuð. Þetta er algjörlega sjálfnærandi vítahringur,“ segir Helena.

Undanfari ræðunámskeiðs

Kvíðameðferðarstöðin stendur nú fyrir sex vikna námskeiði við yfirdrifnum ræðukvíða í umsjá Helenu og Unnar Hilmarsdóttur markþjálfa. Hámarksfjöldi þátttakenda er tólf og hittist hópurinn einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Á námkeiðinu er áhersla lögð á fræðslu um ræðukvíða og afleiðingar hans um leið og áhersla er lögð á æfingar og verkefni í tíma. Úrræðin byggjast á hugrænni atferlismeðferð. Helena segir námskeiðið ekki hefðbundið ræðunámskeið heldur henti frekar sem undanfari ræðunámskeiðs. „Ræðunámskeiðin viðhalda oft kvíðanum hjá þeim sem eru með mjög slæman kvíða. Ýmsar aðferðir á ræðunámskeiðum virka sem hækjur eins og að mæta klukkutíma áður en ræðhöld hefjast, vera vel sofinn og vel undirbúinn. Klikki það er fólk fyrst komið í vandræði,“ segir Helena.

Fyrstu þremur tímum námskeiðsins er varið í fræðslu um kvíða, hvað drífur hann og viðheldur honum. Fólk býr til neikvæðar hugsanir og hugsana– skekkjur um kröfur og eigin getu sem eykur kvíðann að sögn Helenu. Þá segir hún að athygli ræðuhaldara sem þjáist af ræðukvíða oftar en ekki vera á kvíðanum fremur en á áheyrendum. „Þetta eru þættir sem við förum mjög skipulega í gegnum, gerum æfingar og erum með fræðslu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.