*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Erlent 29. nóvember 2020 16:44

Óttast sveiflur á S&P 500 vegna Tesla

Tesla stærsta nýja félagið í vísitölunni, og með 6. mesta markaðsvirðið, næst á eftir Facebook. Íhuga að taka inn á 2 dögum.

Ritstjórn
epa

Vegna stærðar Tesla, og mikilla sveiflna í verði þess, íhugar S&P að taka fyrirtækið inn í vísitölu sína á tveimur dögum í stað eins í fyrsta sinn í sögunni. Með tilkomu fyrirtækisins í vísitöluna verða vísitölusjóðir að selja hlutabréf í minni fyrirtækjum fyrir á milli 60 til 80 milljarða dala, til að kaupa í rafbílaframleiðandanum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um var ákveðið að Tesla yrði tekið inn í S&P 500 vísitöluna 21. desember næstkomandi eftir að því var fyrst hafnað. Félagið yrði það stærsta til að koma inn í vísitöluna í sögunni og sjötta stærsta í henni, rétt á eftir Facebook og á undan Berkshire Hathaway.

Markaðsvirði Tesla, sem er nú metið á 555 milljarða Bandaríkjadala, verður þar með um 1% af heildarmarkaðsvirði fyrirtækjanna í vísitölunni og því var send út könnun til stórra fjárfesta um hvort taka ætti fyrirtækið inn í vísitöluna á tveimur dögum í stað eins.

Samkvæmt umfjöllun WSJ virðist sem margir þeirra sem voru spurðir vera tilbúnir til að samþykkja að félagið komi inn í vísitöluna á tveimur dögum, bæði vegna stærðar fyrirtækisins en einnig vegna þess að mögulegt er að vísitalan fari að sveiflast meira með tilkomu fyrirtækisins inn í hana. Einnig eru uppi áhyggjur vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar í Bandaríkjunum.

40% hækkun á hálfum mánuði

Hlutabréf félagsins hafa hækkað um meira en 40%, í 585,76 dali, bara síðan 16. nóvember síðastliðinn, þegar S&P tilkynnti um að félagið yrði tekið inn í vísitöluna. Þar með hefur félagið sjöfaldast í virði á árinu. S&P vísitalan sjálf hefur hækkað um 13% á árinu.

Hvort sem rafbílaframleiðandinn verður tekinn inn í vísitöluna á einum degi eða tveimur búast markaðsaðilar við að hlutabréf í félaginu eigi eftir að halda áfram að hækka þangað til þau verða tekin inn.

Goldman Sachs hefur til að mynda spáð því að bréfin muni á ná 600 dölum, eða 2% til viðbótar við það sem það er í dag, áður en af því verður. Vísitölusjóður gætu þurft að kaupa andvirði um 8 milljarða dala í bréfum í Tesla að mati bankans.

Á móti kemur að mikil viðskipti eru með bréf bílaframleiðandans, þar sem dagleg viðskipti námu nærri 65 milljörðum dala um miðjan júlí síðastliðinn. Jafnframt hittir tilkoma bréfanna inn í vísitöluna á svipaðan tíma og þegar bæði framvirkir samningar og kaupréttir renna út einu sinni á hverjum ársfjórðungi, en þá eru alla jafna mikil viðskipti hvort sem er.