Flugsérfræðingar kalla eftir því að flugfélög verði sérstaklega vandvirk og setji öryggið á oddinn þegar kemur að því að setja flugvélar, sem hafa verið í geymslu meðan COVID-19 faraldurinn hefur geisað, aftur í notkun. BBC greinir frá.

„Ryðgaðir“ flugmenn, mistök við viðhald og skordýrabú sem gætu hafa myndast á óhreyfðum flugvélaskrokkum eru nefndar sem breytur sem gætu haft áhrif á flugöryggi er farþegaþoturnar snúa aftur í háloftin.

Nú þegar hluti af þotunum hefur verið að snúa í háloftin á ný hefur átt sér stað mikil aukning í tilkynningum um örðugleika miðað við fyrir faraldurinn. Meðal annars hefur illa framkvæmdum lendingum fjölgað nokkuð og bendir Greg Waldron, ritstjóri flugblaðsins FlightGlobal í Asíu, á að það að fljúga flugvél geti verið tæknilega flókið. Því sé ekki hægt að segja að það sé jafn eðlislægt fyrir flugmenn að fljúga á ný eftir langt hlé líkt og er fyrir marga að hjóla á ný eftir langt hlé.

COVID-19 faraldurinn hefur valdið miklu hruni í eftirspurn eftir flugum og þar af leiðandi hafa mörg flugfélög neyðst til að geyma þotur sínum óhreyfðar á jörðu niðri.