Viðmælendur Viðskiptablaðsins segjast ekki muna eftir því að pólitískar hræringar hafi haft jafn mikil áhrif á íslenska verð- bréfamarkaðinn í seinni tíð. Mest hafa áhrifin verið á skuldabréfamarkaði, en markaðsvirði markflokka ríkisskuldabréfa lækkaði um hátt í 10 milljarða króna á fyrstu þremur dögum vikunnar.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6% á sama tíma. Skuldatryggingarálag íslenska ríkisins hefur lækkað mikið það sem af er ári, en frá byrjun vikunnar hefur álagið hækkað nokkuð. Álagið var í kringum 95 punkta í síðustu viku, en stóð í 102 punktum um miðjan dag á miðvikudag.

Mestar voru áhyggjur fjárfesta upp úr klukkan tvö, daginn sem tilkynnt var um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra, en þá hafði forseti Íslands hafnað beiðni Sigmundar um að rjúfa þing og Júlíus Vífill Ingvarsson tilkynnt að hann hygðist segja af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Markaðurinn róaðist nokkuð þegar leið á daginn, en ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkaði síðan aftur eftir hádegi í gær.

Áhyggjur af vinstri flokkum

„Óvissa er alltaf verðlækkandi á fjármálamörkuðum,“ segir Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræð­ ingur hjá IFS Greiningu. Hann segir helstu óvissuna núna snúa að því hvort sú góða sigling sem íslenskt hagkerfi hefur verið á undanfarið haldi áfram og hvort einhver breyting verði á áformum um losun fjármagnshafta.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að mikilvægt sé að ríkisstjórnin ljúki verkefnum á borð við útboð á aflandskrónum, sem fyrirhugað er á næstunni. Már Guðmundsson seðlabankastjóri vildi ekki tjá sig við Viðskiptablaðið um af­landskrónuútboðið eða hvort hann hefði rætt við fjármálaráð­ herra um stöðuna þegar eftir því var leitað í gær.

Jóhann segir að fjárfestar hafi áhyggjur af því ef vinstri flokkar komist til valda. „Með réttu eða röngu lækka eignir á fjármálamörkuðum yfirleitt í verði þegar tilkynnt er um vinstri stjórnir eða það kemur í ljós að þær komist til valda.“ Hann segir að óvissan sé ennþá meiri fyrir erlenda fjárfesta. Þegar þeir sjái fréttir af fjöldamótmælum óttist þeir að fjármunir þeirra gætu verið lokaðir inni af nýrri ríkisstjórn. Þá hafi það áhrif á íslenska fjárfesta að sjá umfjöllunina sem verið hefur erlendis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .