Fjármálaráðherrar sjö stærstu iðnríkja heims lýstu því yfir um helgina að þeir óttuðust þróunina á gjaldeyrismörkuðum og hvaða afleiðingar hún kunni að hafa fyrir fjármálamarkaði og raunstærðir í hagkerfum heimsins.

Yfirlýsingin vakti athygli því að hún bendir til þess að samstaða sé um hversu óæskileg þróunin hefur verið á gjaldeyrismörkuðum að undanförnu.

Sem kunnugt er hefur gengi Bandaríkjadals fallið mikið undanfarin ár á meðan gjaldmiðill á borð við evruna hefur styrkst. Í síðustu viku féll dalurinn í 1,5912 gagnvart evrunni og hafði þá aldrei verið veikari. Sérfræðingar telja almennt séð að fall á gengi dalsins hafi verið æskilegt sökum hins mikla halla sem er á viðskiptum Bandaríkjamanna við umheiminn.

En að sama skapi hefur verið bent á hætturnar sem kunna að hljótast af ef fallið á genginu verður bæði of mikið og of hratt.

Yfirlýsing fundar fjármálaráðherra sjö helstu iðnríkja heims, sem fór fram í Washington um helgina, bendir til þess að leiðtogar þeirra hafi vaxandi áhyggjur af stöðu mála. Fram kemur í henni „að það hafi verið skarpar hreyfingar á gengi helstu gjaldmiðla og að ríkin hafi áhyggjur af mögulegum afleiðingum þessa fyrir efnahags- og fjármálastöðugleika.“

Jafnframt segir í yfirlýsingunni að iðnríkin sjö hyggist „fylgjast náið með gjaldeyrismörkuðum og grípa til sameiginlegra aðgerða þegar það á við.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .