Þeir greiningaraðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við vegna skarprar lækkunar hlutabréfaverða í Kauphöllinni í dag telja að orsakir lækkunarinnar megi helst rekja til erlendra þátta, sér í lagi slæms útlits í Kína. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,33% það sem af er degi.

Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að það séu slæm tíðindi af efnahagsþróuninni í Kína sem virðast hafa komið lækkunarhrinunni af stað. Slíkt hafi áhrif um víðan völl. Ragnar Benediktsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, er sama sinnis. Undirliggjandi þættir á Íslandi virðast ekki veita tilefni til lækkana. Til dæmis hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa farið ívið lækkandi í dag, en það ætti að öllu óbreyttu að kynda undir hækkanir á hlutabréfamarkaði.

Ragnar bendir á að þau hlutafélög sem hafa tekjur í evrum hafi lækkað mest það sem af er degi. Þau félög sem hafa lækkað minnst hafi hins vegar tekjur í íslenskum krónum. Hann segir aðspurður að mjög erfitt sé að segja til um það hvort lækkanirnar haldi áfram. Spennandi verði að sjá hvernig S&P 500 vísitalan þróast, en bandarískir hlutabréfamarkaðir opna nú síðdegis.

Lækkun olíu ætti að vera hagfelld Icelandair

Olíuverð hefur lækkað mikið í dag . Í greiningu IFS á N1, sem kom út í síðustu viku, er fjallað um olíumarkaðinn. „Það er líklegt að olían geti lækkað meira, alveg niður í 10-20 dollara á tunnuna,“ segir Ragnar. „Það eru sum fyrirtæki í Persaflóa og í Vestur-Texas sem eru ennþá að framleiða með margínu á þessu verði. Það er bara verðstríð í gangi.“

Kristján Markús bendir á að þróun olíuverðs ætti að öllu óbreyttu að vera hagfelld Icelandair. "Við höfum eins og staðan er núna um 2% lækkun á Icelandair, og það er að mínu mati dálítið vel í lagt, þar sem hagstæð gengisþróun evru gagnvart dollara hefur átt sér stað síðustu fjóra viðskiptadaga og olíuverð virðist ekki hafa fundið botninn ennþá," segir hann.