Langt stöðnunartímabil ríkti í efnahagsmálum hér á landi á árunum 1988 til 1993. Ein af afleiðingum þess var að verulega dró úr trausti á hvernig hagkerfið hafði verið rekið. Álafoss varð gjaldþrota árið 1991, sem þá var stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, og Samband íslenskra samvinnufélaga liðaðist í sundur, með skuldaklafa á bakinu, árið 1992. Fjárfestingar hins opinbera í laxeldi og loðdýrarækt höfðu flestar misheppnast hrapallega. Margir óttuðust þjóðargjaldþrot sambærilegt og Færeyingar höfðu þá nýlega gengið í gegnum eftir offjárfestingar á ýmsum sviðum. Sífellt háværari raddir urðu um að afskipti stjórnmálamanna af efnahagslífinu og fyrirtækjarekstri væru ein af rótum vandans.

Magnús Sveinn Helgason sagnfræðingur lýsir þessari þróun í viðauka sínum við Rannsóknarskýrslu Alþingis um fall bankanna:  „Segja má að fram til tíunda áratugarins hafi efnahagsstjórn Íslands einkennst öðrum þræði af klassískum pilsfaldakapítalisma þar sem ríkisvaldið, í gegn um ríkisbankana, fjárfestingar og lánasjóði, kom illa stöddum fyrirtækjum oftar en ekki til bjargar,“ segir Magnús Sveinn. Einn angi einkavæðingarferlisins var að félagaformið tók breytingum. Ríkisfyrirtæki urðu hlutafélög, samvinnufélagaformið var á undanhaldi, sér í lagi með falli Sambandsins. Gerð var krafa á að hlutafélög, jafnvel þó þau væru enn í ríkiseigu, skiluðu hagnaði og greiddu arð til eigenda sinna.

Úr viðjum pólitískrar ofstjórnar

Veruleg hreyfing kom á einkavæðingarferlið þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum árið 1991 undir forsæti Davíðs Oddssonar. Ríkisstjórnin boðaði sölu ríkisfyrirtækja með það að markmiði að nútímavæða hagkerfið og „losa það úr viðjum pólitískrar ofstjórnar“. Hreinn Loftsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og síðar formaður einkavæðingarnefndar, taldi að fleira þyrfti að hafa í huga en hámarks söluverð fyrir ríkið, að því er fram kom í grein eftir hann árið 1991. Aukin skilvirkni hagkerfisins, að minnka samkeppnisrekstur ríkisins í takt við einkafyrirtæki og að draga flokkspólitískum afskiptum af atvinnulífinu voru ekki síður mikilvæg markmið. Nýjar samkeppnisreglur og gildistaka EES-samningsins 1. janúar árið 1994, höfðu einnig í för með sér að stjórnvöldum voru settari þrengri skorður um bein afskipti af efnahagsmálum. Ríkið gat ekki lengur hyglt einstaka fyrirtækjum í samkeppnisrekstri líkt og dæmi voru um frá fyrri árum. Því varð enn frekari þrýstingur á að ríkið losaði um hluti í samkeppnisrekstri. Strax á árinu 1992 seldi ríkið hluti í átta fyrirtækjum. Rekstri Ríkisskipa var hætt og eignir þess seldar en félagið hafði verið rekið með myndarlegri meðgjöf frá ríkinu á hverju ári. Samskip og Eimskip þóttu fullfær um að sinna þessu verkefni og háðu félögin á næstu árum nokkuð harða samkeppni í strandsiglingum. Meðal þess sem ríkið seldi hluti í árið 1992 var framleiðsludeild ÁTVR, Prentsmiðjan Gutenberg, Ferðaskrifstofa Íslands og Íslensk endurtrygging, hlutur í Jarðborunum, Menningarsjóður og Þróunarfélag Íslands.

Fleiri félög fylgdu í kjölfarið á borð við Lyfjaverslun Íslands. Einkavæðingarferlið hélt áfram eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við árið 1995. Ríkið seldi hlut sinn í Íslenskum aðalverktökum, sem það hafði haldið á frá stofnun fyrirtækisins utan um framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher árið 1954. Hlutir í fiskeldisfyrirtækjunum Hólalaxi og Stofnfiski voru einnig losaðir. Auk þess seldi ríkið Áburðarverksmiðju ríkisins og hlut sinn í Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga og Bifreiðaskoðun, sem varð í kjölfarið að Frumherja. Þá seldu ríkið og Reykjavíkurborg hluti sína í Skýrr. Einnig var ákveðið að hefjast handa við einkavæðingu bankanna.

Nánar er fjallað um einkavæðingar á 9. og 10. áratugnum í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið .