„Leiða má að því nokkuð sterkum líkum að viðskipti birgja við smásala styðjist ekki í öllum tilvikum við haldbærar viðskiptalegar forsendur“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Hann benti á það í erindi á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins í morgun að svo mikill munur væri oft á verði frá birgum til lágvöruverslana annars vegar og minni verslana hins vegar að hinir síðarnefndu þurfi að selja vörur sínar með tapi eða hverfandi álagningu til að nálgast lágvöruverðsverslanir í samkeppni. Í Þessu geta falist aðgangshindranir inn á markaðinn. Samkeppniseftirlitið telji óhjákvæmilegt að birgjar taki verðstefnu sína til athugunar í samræmi við þessar niðurstöður og ætlar að beita sér fyrir því að kanna lögmæti samninga birgja við verslanir.

Niðurstöðurnar koma fram í skýrslu eftirlitsins um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði.

Páll Gunnar sagði að ætlast verði til þess af birgjum , ekki síst þeim stærri, að þeir geti á hverjum tíma sýnt fram á að viðskiptakjör þeirra styðjist við málefnaleg sjónarmið. Ef birgir er í markaðsráðandi stöðu þá hvílir á honum rík skylda að grípa ekki til neinna aðgerða sem með óeðlilegum hætti geta raskað samkeppni.

Gengishrun skýrir verðþróun

Hann nefndi þrjú atriði máli sínu til stuðnings: Í fyrsta lagi virðist landlægt að viðskiptasamningar séu óformlegir fremur en formlegir, jafnvel þótt samkeppnisyfirvöld hafi mælst til þess að þeir væru skriflegir. Í öðru lagi dreifi birgjar oft vörum sínum beint í einstakar búðir lágvöruverðsverslana og geti því síður beitt magnhagræði sem rökum fyrir verðmuni til stórra verslanakeðja annars vegar og minni verslana hins vegar. Í þriðja lagi geti mikill kaupendastyrkur til stórra keðja leitt til meiri munar á verði til verslana en réttlátt sé á grundvelli markaðarins.

„Eitt af því sem við höfum haft áhyggjur af eftir hrun er að hækkun á dagvöruverði geti skýrt af því að verðhækkanir hafi verið kallaðar fram í andstöðu við samkeppnislög og almenningur látinn borga eftir hrun fyrir óskynsamlegan rekstur sumra dagvörufyrirtækja fyrir hrun. Í þessu ljósi er jákvæð sú niðurstaða skýrslunnar að verðhækkanir skýrist fyrst og fremst af ytri aðstæðum á borð við gengishrunið,“ sagði Páll Gunnar.