Slitastjórn Kaupþings óttaðist að þar sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefði flutt lögheimili sitt til London í Bretlandi þá hafi verið möguleikar á því að hann seldi eignir sínar hér, fengi undanþáguheimild frá gjaldeyrishöftum Seðlabankans og flytti andvirði af sölu eigna úr landi. Slitastjórnin telur jafnframt að fjárhagsstaða Sigurðar hafi versnað eftir að hann fór frá Kaupþingi og þyrfti hann á fjármununum að halda til að halda fjölskyldu sinni uppi. Kæmi Sigurður fjármununum úr landi myndi draga úr líkum á því að hann myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart þrotabúi bankans.

Sigurður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til að greiða þrotabúi Kaupþings 500 milljónir króna auk dráttarvaxta frá árinu 2010.

Fram kemur í dómi Héraðsdóm Reykjavíkur í máli slitastjórnar Kaupþings gegn Sigurði frá í morgun að af þeim sökum hafi eignir hans hér á landi verið kyrrsettar upp í kröfurnar. Þar á meðal er einbýlishús hans við Vaðhúsabraut á Seltjarnarnesi, eignarhluti í jörðinni Stíflisdalur og sumarhús og 20% hlutur hans í jörðinni Hvítsstöðum.

Sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti eignirnar í júlí í fyrra og staðfesti héraðsdómur kyrrsetningarbeiðnina í morgun.