Þotur Icelandair og "Þristurinn" fljúga yfir höfuðborgarsvæðið í dag í tilefni af byrjun áætlunarflugs til Seattle en Icelandair hefur í dag beint áætlunarflug milli Íslands og Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en í tilefni dagsins munu Boeing 757-200 þotur Icelandair sem eru að koma til landsins frá Evrópu fljúga hringflug yfir höfuðborgarsvæðið.

Flugleiðin liggur yfir Mosfellsbæ og síðan verður ströndinni fylgt í rólegri beygju umhverfis Reykjavík til Keflavíkur. Þristurinn (DC-3 vél Þristavinafélagsins) mun heiðra vélar Icelandair með nærværu sinni yfir höfuðborginni á sama tíma. Yfirflugið mun verða á milli klukkan 15.00 og 15.40 í dag.

Þá kemur fram að í tilefni af fyrsta fluginu verður efnt til kynningardagskrár á morgun í Seattle í samstarfi við alþjóðaflugvöllinn í Seattle og ferðamálaráð borgarinnar.

„Bókanir í flugið til og frá Seattle hafa farið vel af stað og einkum hefur sala á ferðum ferðamanna frá Seattlesvæðinu til Íslands verið meiri en gert var ráð fyrir,“ segir í tilkynningunni.

„Flugið byggir m.a. á góðri samkeppnisstöðu Icelandair á leiðinni milli Seattle og Evrópu. Icelandair getur boðið 3-4 klukkustunda styttri flugtíma en aðrir geta t.d.milli Seattle og höfuðborga Norðurlandanna með viðkomu á Íslandi.“

Flogið verður fjórum sinnum í viku í vetur, frá Íslandi á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og laugardögum kl. 17.00. Frá Seattle verður flogið á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum.