Greinendur vestanhafs hafa undanfarna daga klórað sér í kollinum yfir gengi B-hlutabréfa í Liberty TripAdvisor Holdings Inc. Við opnun markaða á miðvikudag stóðu bréfin í rétt rúmum fimm dollurum á hlut en um hádegisbil sama dag hafði verðið rokið upp í 113 dollara á hvern hlut. Sagt er frá á vef Bloomberg .

Hlutverk Liberty TripAdvisor Holdings Inc. er að meginstefnu að halda utan um hluti í TripAdvisor. Bæði félög eru síðan hluti af Liberty Media Corp. en það á síðan meðal annars hafnaboltaliðið Atlanta Braves og Sirius XM Holdings.

Stökkið var svo mikið að á miðvikudag sendi félagið tilkynningu inn á markaðinn þess efnis að það hefði engar útskýringar á því hvers vegna í ósköpunum þróunin hefði verið á þennan veg. Áður en markaðir lokuðu á ný á miðvikudeginum hafði verðið fallið á ný niður í 18,5 dollara á hlut. Við opnun markaða daginn eftir tóku þeir á ný stökk upp í 92 dollara á hlutinn en hafa síðan þá verið tiltölulega stöðugir í um fimmtíu dollurum fyrir hlutinn.

Rétt er að taka fram að síðastliðinn þriðjudag, það er degi áður en hamagangurinn hófst, barst Liberty TripAdvisor tilkynning frá Nasdaq ytra um að markaðsvirði B-bréfanna síðastliðna þrjátíu daga hefði fallið niður fyrir milljón dollara markið. Var félaginu veittur 180 daga frestur til að koma hlutum í lag en ellegar yrðu bréfin tekin úr viðskiptum.

Greinandi sem Bloomberg ræddi við hafði engar útskýringar á reiðum höndum um það hvers vegna gengi bréfanna hefði verið með þessum hætti. Engar upplýsingar lægju fyrir um það hver hefði keypt bréfin eða hvers vegna. Mögulegt væri hins vegar að einhverjir, sem mögulega leiddist heima hjá sér í sóttkví, hefðu tekið eftir því að bréfin væru á uppleið og stokkið á þau.

Aðeins rétt ríflega 144 þúsund B-hlutir ganga kaupum og sölum á markaðnum. Bréfin hafa þá eiginleika fram yfir A-bréf í félaginu, en þau bréf hafa ekki fylgt þróun B-hlutanna, að tíu atkvæði fylgja hverjum hlut í stað eins atkvæðis fyrir hvern A-hlut. Tæpur mánuður er í aðalfund félagsins og því mögulegt að einhver hafi viljað styrkja stöðu sína fyrir þann fund. Önnur skýring sem gefin hefur verið er að lítil þurfi til að koma genginu á skrið í ljósi þess hve fáir hlutir eru skráðir á markaðinn.

Í öllu falli þá hafa greinendur litla hugmynd um hvað gekk á.