Skiptafundi Baugs Group hf., sem áætlað var að fram færi á morgun, var frestað í upphafi viku um ótiltekinn tíma. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ástæðan sú að óvænt hafi fundist fjármunir sem tilheyrðu búinu.

Í auglýsingu boðaðs fundar kom fram að fjallað yrði um frumvarp til úthlutunar úr búinu og að ef andmælum yrði ekki hreyft yrði skiptum lokið á grundvelli þess. Hið nýfundna fé þýðir hins vegar að skiptalok frestast.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að upphæðin sé nokkrir tugir milljóna en það eru smámunir í stóra samhenginu. Gjaldþrotið er eitt það stærsta í sögu Íslands, ef frá eru talin þrot gömlu bankanna, en búið var tekið til gjaldþrotaskipta í ársbyrjun 2009. Samtals var kröfum upp á 400 milljarða lýst í búið og fengust 240 milljarða kröfur samþykktar. Áætlað er að um sjö milljarðar fáist upp í samþykktar kröfur eða tæp þrjú prósent.