Nú verður hægt að panta ferðalag blindandi með nýjasta tilboði þýska flugfélagsins Lufthansa, sem þeir kalla Lufthansa Surprise. Hugmyndin er að flugfélagið ákveður hvar viðskiptavinurinn endar á að eyða fríi sínu þó fólk geti valið úr nokkrum mismunandi flokkum eftir því hvers konar áfangastað það kýs sér.

Í hverjum flokki eru frá 7 til 12 áfangastaðir en jafnframt verður hægt að útiloka þær borgir sem viðskiptavinir vilja alls ekki fara til í hverjum flokki. Eftir að búið er að velja flokk geta farþegar bókað sér ferð með allt frá 1 dags fyrirvara til 42 daga.

Hugmyndin er að þessi valkostur sé ódýr, það er allt frá 99 bandaríkjadölum eða um 12 þúsund íslenskum krónum. Flokkarnir sem boðið er uppá eru náttúruskoðunarferðir, sól og sandur, félagaferðir (bromance), hefðbundnar borgarferðir, menningarferðir, matgæðingaferðir, partýferðir, ástarferðir (romance) eða verslunarferðir.

Þeir sem hafa hug á óvæntum ferðalögum verða þó að hafa í huga að enn sem komið er verður einungis boðið uppá slíkar ferðir frá Frankfurt og Munich.