Kanadíski seðlabankinn tilkynnti í dag um 25 punkta stýrivaxtalækkun niður í 0,75% en ákvörðunin kom flestum greiningaraðilum á óvart. Í yfirlýsingu frá bankanum segir að lækkunin sé liður í að verja kanadískt hagkerfi fyrir frekari lækkun olíuverðs en þar á landi á umfangsmikil olíuframleiðsla sér stað.

Gengi kanadíska dollarsins hefur lækkað um 2,5% gagnvart bandarískum dollar það sem af er degi niður í 80 sent og hefur ekki verið lægra síðan árið 2009.

Lækkandi olíuverð veldur áhyggjum

Gert er ráð fyrir því draga muni töluvert úr fjárfestingum í kanadískum olíuiðnaði í kjölfar þess að verð á Brent norðursjávarolíu hefur lækkað um 60% frá því í júní á síðasta ári. Í tilkynningu frá Kanadíska seðlabankanum segir að lækkun olíuverðs hafi aukið á áhættu í verðbólguþróun og í almennum fjármálastöðugleika. Aðgerðir bankans í dag eru til þess fallnar að draga úr þeirri áhættu, styðja við nauðsynlegar aðgerðir til að auka við fjárfestingu og hagvöxt og að koma kanadísku hagkerfi aftur í samt horf.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .