Í maí síðastliðinn var afgangur af vöruskiptum á Íslandi en á síðastliðnum 61 mánuði hefur afgangur myndast fjórum sinnum. Enn er halli á vöruskiptum Íslands á fyrsta þriðjungi ársins sem er þó minni en á sama tíma fyrir ári. Frá þessu er greint á vef Íslandsbanka.

Afgangur af vöruskiptum Íslendinga í maí reyndist vera 1,8 milljarður króna og vöruskiptin voru þar með ríflega 4,6 milljörðum hagstæðari en í sama mánuði árið áður. Ástæður þess má að mestu rekja til snarps samdráttar í innflutningi en þar að auki hefur gengisbreyting krónunnar mildað þann skell sem hefur orðið vegna samdráttar í magni útfluttra vara.

Hallinn á fyrstu fjórum mánuðum ársins nemur tæplega 18,6 milljörðum samanborið við rúmlega 18,9 milljarða árinu áður. Þar verður þó að taka með í reikninginn að sala á flugvélum Wow-air í upphafi síðasta árs lagaði vöruskiptin um tæpa 20 milljarða frá því sem ella hefði orðið. Alls hafa verið fluttar út vörur fyrir um 250 milljarða króna og fluttar inn fyrir um 268 milljarða á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Hlutfallslega dróst útflutningur landbúnaðarvara mest saman eða um 22,9%, um 600 milljónir. Í krónum talið dró mest úr útflutningsverðmæti iðnaðarvara eða 5 milljarða króna, um 16,4% samdráttur. Innflutningur í maí dróst saman um 22,6% milli ára eða um 15 milljarða króna.