Hagstofa Bretlands birti tölur yfir júlímánuð hjá hinu opinbera í Bretlandi. Sérfræðingar og markaðsaðilar bjuggust við að 2,5 milljarða punda afgangur yrði hjá hinu opinbera í júlí. Raunin er sú að 62 milljóna punda halli varð hjá hinu opinbera.

Greiningaraðilar telja upphæðina ekki skipta miklu máli, þeir teldu enn að fjármál hins opinbera væru á réttri leið enda væri efnahagslíf Bretlands á batavegi. Skatttekjurnar jukust um 3,4% milli ára.

Þetta þykja ekki góðar fréttir fyrir fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, sem hefur verið hælt nýverið fyrir að ná góðum árangri í efnahagsmálum Bretlands.

Upplýsingarnar voru birtar með fyrirvara um breytingar. Sem dæmi má nefna að á sama tíma og í fyrra var einnig fyrst talið að um halla væri að ræða. En síðar kom í ljós að 823 milljóna punda afgangur varð af rekstri hins opinbera í júlí.

Hagvöxtur í Bretlandi var 0,6% á öðrum ársfjórðungi og gera hagfræðingar ráð fyrir að hann verði meiri í haust.