Hjá alþjóðlegum samtökum rafmagns- og tölvuverkfræðinga, IEEE, urðu þau leiðu mistök að persónulegar upplýsingar 100.000 meðlima lágu á ólæstu vefsvæði. Kennari við Kaupmannahafnarháskóla hefur nú birt tölfræðilega úttekt á þeim lykilorðum sem verkfræðingarnir notuðu, en þar á meðal eru margir starfsmenn risafyrirtækja eins og Apple og Google.

Algengasta lykilorðið var „123456“ og þar á eftir var „ieee2012“. Næst í röðinni voru lykilorðin „12345678“ og „123456789“. Á listanum yfir algengustu lykilorðin voru svo sígildir frasar eins og „Password“ og „admin“. Óskandi er að verkfræðingarnir noti betri lykilorð í vinnunni.