Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði í vikunni stýrivexti um 0,25 prósentur og eru þeir nú 4,75%. Stýrivextir hafa alls verið lækkaðir um eitt prósentustig í þremur skrefum frá því í ágúst í fyrra og hafa ekki verið lægri síðan í júní 2015. Þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti úr 5,75% í 5,25% í ágúst síðastliðnum höfðu stýrivextir ekki verið lækkaðir síðan í desember 2014. Í desember 2016 voru vextirnir lækkaðir niður í 5% og frekari skref voru stigin í gær.

Ýmsir þættir toguðust á þegar kom að vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Hagvöxtur var langt umfram áætlanir í fyrra og spáir Seðlabankinn 6,3% hagvexti í ár, sem er heilu prósentustigi meira en bankinn spáði í febrúar síðastliðnum. Að auki hefur framleiðsluspenna í hagkerfinu vaxið þrátt fyrir framleiðniaukningu og aukinn innflutning vinnuafls. Á móti þessu vinnur gríðarleg styrking krónunnar, sem leiðir til þess að verð­ bólguhorfur fyrir þetta og næsta ár hafa batnað. Gengisstyrkingin lækkar verðlag innfluttra afurða og vegur því t.a.m. á móti hækkun húsnæðisverðs í vísitölu neysluverðs. Að auki höfðu raunvextir Seðlabankans hækkað á milli funda peningastefnunefndar og var því talið svigrúm til að lækka vexti.

Einn helsti drifkraftur verðbólgunnar undanfarin ár er mikil hækkun húsnæðisverðs. Seðlabankinn telur vaxtaákvörðun sína ekki koma til með að hafa mikil áhrif til hækkunar fasteignaverðs. Samkvæmt líkani bankans veldur eins prósents lækkun langtímaraunvaxta um 2% hækkun á raunvirði húsnæðis.

„Ef eitthvað er, þá hefði staðan á húsnæðismarkaði mælt á móti því að við lækkuðum vexti á þessum tímapunkti, en við skoðum marga þætti,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á vaxtaákvörð­unarfundinum. Hann sagði að það væri hlutverk annarra aðila en peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikaráðs að vinna gegn hækkun fasteignaverðs. Málið ætti heima hjá stjórnvöldum og hefði átt að ráðast í aðgerð­ir til aukningar framboðs mun fyrr.

Þarf frið frá stjórnvöldum

Spurður hvert helsta áhyggjuefnið væri varðandi verðstöðugleika sagði Már að það væri stefnubreyting af hálfu ríkisins. Seðlabankinn gæti „í prinsippinu“ haldið verðstöðugleika til lengdar ef hann fær til þess frið og ekki á sér stað yfirruðningur ríkisfjármála (e. fiscal dominance).

„Þess vegna er stærsta áhyggjuefnið varðandi verðstöðugleika til lengdar hvort þetta kerfi sem núna er að skila miklum árangri verði styrkt og bætt eða hvort það gerast einhverjar breytingar þar sem horfið er beinlínis frá markmiðinu um verðstöðugleika,“ sagði Már og bætti því við að viljinn yrði að vera til hendi.

Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að kjarasamningar á seinni hluta ársins komi til með að rúmast innan ramma SALEK-samkomulagsins, en Már var spurður hvort sú spá væri ekki of bjartsýn.

„Hún kann vel að vera það og þetta er auðvitað einn af áhættu­ þáttunum. Þarna er okkur alltaf vandi á höndum, við viljum ekki fara að segja að það sé öruggt að þetta bresti og gera einhverja spá á þeim grundvelli. Það myndu nú ekki margir kætast ef við myndum hækka vexti núna vegna þess að við teljum að SALEK samkomulagið muni ekki halda,“ sagði Már. Fari hins vegar svo að samkomulagið rofni og eitthvað stórt gerist á vinnumarkaði sem er gersamlega í ósamræmi við spár Seðlabankans, þá breytist myndin og bregðast þurfi við því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.