*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 17. febrúar 2020 16:48

Óveður kostaði Landsnet hundruð milljóna

Hagnaður Landsnet dróst saman um fjórðung á síðasta ári. Leyfismál töfðu helming áætlaðra 9 milljarða framkvæmda.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vegna tafa á leyfisveitingum tókst Landsneti einungis að fjárfesta fyrir um helming af um 70 milljóna dala fjárfestingaráætlun félagsins á síðasta ári, eða andvirði tæplega 4,5 milljarða af 8,9 milljarða króna fjárfestingu.

Félagið segir kostnað hafa aukist um 3 milljónir dala, eða sem samsvarar rétt rúmlega 381 milljón króna á árinu, sem að stærstum hluta til megi rekja til óveðurs í desember.

Landsnet hagnaðist um tæplega 28,1 milljón Bandaríkjadali eða sem nemur 3,4 milljörðum króna á síðasta ári, sem er samdráttur um 24,3% frá árinu 2018 þegar félagið hagnaðist um 37,1 milljón dali, eða sem nemur rétt tæplega 5 milljörðum króna.

Tekjur félagsins drógust hins vegar saman um 9%, eða úr 154,1 milljón dala í 140,3 milljónir dala, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 3,2%, eða úr 93,1 milljón dala í 90,1 milljón dala. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 50,2 milljónum dala, eða sem nemur tæplega 6,1 milljarð króna á síðasta ári, en hann nam 61,1 milljón dala, eða 7,4 milljörðum króna árið áður.

Handbært fé félagsins nam 31 milljón dala í lok árs, en handbært fé frá rekstri nam 67,2 milljónum dala á árinu. Eigið fé félagsins jókst um 5,7% á árinu, úr 370,3 milljónum dala í 391,3 milljónir, meðan skuldirnar drógust saman um 3,2%, úr 476 milljónum dala í 461 milljón.

Þar með jukust eignirnar um 0,7%, úr 846 milljónum dala í 852 milljónir dala meðan eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 43,8% í 45,9%.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs segir árið 2019 hafa verið ár sviptinga vegna veðurs en fjármálalegur stöðugleiki hafi einkennt reksturinn.

„Þrátt fyrir áföll tengd óveðri gengur rekstur félagsins vel og fjárhagsleg staða þess stöðug líkt og síðustu ár. Þetta er gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að stærsta viðfangsefni okkar er orkuöryggi þjóðarinnar og viðskiptavina,“ er haft eftir Guðlaugu í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Við vorum minnt á orkuöryggi og mikilvægi rafmagns í desember. Þrátt fyrir töluverða áraun og straumleysi hjá notendum gengu áætlanir okkar eftir og vinna við viðgerðir gengu vel.  Að okkar mati hefði verið hægt að koma í veg fyrir hluta kostnaðarins vegna óveðursins ef uppbygging kerfisins hefði gengið samkvæmt áætlunum síðustu ár.

Á árinu 2019 tókst einungis að fjárfesta fyrir helming af áætluðum fjárfestingum ársins meðal annars vegna tafa á leyfisferlum. Þetta er svipuð staða og við höfum horft á undanfarin ár. Nú er vinna í gangi í stjórnkerfinu við að einfalda regluverkið og við höfum miklar væntingar til þess. Framundan er styrking flutningskerfisins og árið 2020 verður eitt af stærstu framkvæmdaárum félagsins. Áætlanir okkar gera ráð fyrir framkvæmdum fyrir að lágmarki 70 milljónum USD á árinu 2020.

Fjármögnun félagsins hefur gengið mjög vel og fyrirtækinu vel tekið á erlendum mörkuðum. Í desember var gengið frá 100 milljónum USD skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum sem nýtt er til lokagreiðslu á stofnláni móðurfélagsins með gjalddaga í mars árið 2020 auk fjárfestinga.“