*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Erlent 9. apríl 2012 18:15

Óvenju margir brunar í risasnekkjum

Tryggingasérfræðingar segja grunsamlegt hversu margar snekkjur auðugra einstaklinga verða eldi að bráð við Miðjarðarhaf.

Ritstjórn

Breska tryggingafélagið Lloyds hefur fengið óvenjumikið af tilkynningum frá viðskiptavinum sínum sem hafa tryggt snekkjur sínar hjá félaginu en þær orðið eldi að bráð við Miðjarðarhafið og í kringum hafnarborgina Piraeus við Grikkland en þar er stærsta höfn landsins. Snekkjurnar eru engin smásmíði. Verðmæti þeirra eru um og yfir tvær milljónir evra, rúmar 330 milljónir króna og upp úr. 

Breska dagblaðið Telegraph hefur eftir Nick Smith, framkvæmdastjóra hjá breska tryggingafélaginu Charles Taylor, að fjórtán snekkjur sem viðskiptavinir fyrirtækisins hafi tryggt hafi brunnið við grunsamlegar aðstæður á síðastliðnu hálfu ári. Hann segir tryggingasvindl eða tilraunir til svika af þessu tagi algengt þar sem kreppir að í efnahagslífinu. 

Þá kemur fram í blaðinu að snekkjur séu alla jafna tryggðar fyrir hærri upphæð en mögulegt er að fá fyrir þær við sölu. Því bregði sumir snekkjueigendur á þetta ráð þegar tómahljóð heyrist í bauknum og þeir hafa ekki lengur ráð á því að greiða allt upp undir 256 þúsund evra, rúmlega 40 milljóna króna, í skatt af skútunni á ári eins og dæmi eru um á Ítalíu. Standi snekkjueigendur ekki skil á skattinum geta þeir átt yfir höfði sér risasekt.

Þá virðist sem snekkjueigendum séu mislagðar hendurnar þegar kemur að gerð skattframtala. Í síðustu viku, að sögn Telegraph, komst ítalska lögreglan nefnilega að því við höfn nokkra að einn af hverjum þremur voru eigendum snekkja sem þar voru við bryggju höfðu enga eða mjög lágar tekjur.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að undrun sætir hversu margir Porsche Cayenne-sportjeppar eru á Grikklandi miðað við höfðatölu og hversu margir eru blindir á eyjunni Zakynthos á Grikklandi. Þar á meðal eru leigubílstjóri og fuglafangari. Eyjan hefur fengið viðurnefnið Eyja hinna blindu af þessum sökum þótt ætla megi að skýringanna megi fremur finna í skattframtölum en hjá augnlæknum.