„Það var mjög mikið áhorf á sértakar umræður um skýrslu Íbúðalánasjóðsnefndarinnar. Ég hugsa að það sé skýringin,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, en heimsóknir á vef Alþingis voru tífalt meiri í síðustu viku en gengur og gerist. Heimsóknirnar voru 115.913 samanborið við 15.798 í vikunni á undan, samkvæmt talningu Samræmdrar vefmælingar. Heimsóknirnar hafa sveiflast frá 7.900 og upp í rétt rúmlega 24 þúsund á síðastliðnum tólf mánuðum. Í síðustu viku gerðist það hins vegar að heimsóknir á vef Alþingis jukust um 633% og voru heimsóknir aðeins 12,9% innanlands.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu um starfsemi Íbúðalánasjóðs á þriðjudag. Aðeins um hundrað eintök voru prentuð af skýrslunni og var aðeins hægt að nálgast hana á vef Alþingis . Sérstakar umræður voru um skýrsluna á Alþingi á þriðjudag og þær sendar beint út eins og aðrar umræður á Alþingi.

Á skrifstofu Alþingis fengust þær upplýsingar að nokkur mál hafi vakið mikla athygli í síðustu viku. Hæst báru umræður um veiðigjaldamálið og undirskriftirnar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er nú með á sínu borði. Þá vakti mikla athygli mál bandaríska uppljóstrarans Edward Snowden, sem sótti m.a. um landvist hér á landi. Erlendir fjölmiðlar fjölluðu nokkuð um málið en einnig um svör Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sem var á landinu, við spurningum Birgittu Jónsdóttur, formanns Pírata, um málefni Snowden.

Hér að neðan má sjá þróun heimsókna á vef Alþingis síðastliðið ár.