Sýkna EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu á mánudag og þau áform að takmarka kaup aflandskrónueigenda við lengri skuldabréfaflokka í stað styttri eru samkvæmt upplýsingum vb.is talin skýra mikla veltu var á skuldabréfamarkaði í vikunni. Meðalveltan á degi hverjum nam 20,2 milljörðum króna sem er tvöfalt meira en alla jafna. Í gær nam hún t.d. 33,7 milljörðum króna og þarf að fara aftur til loka ársins 2010 til að finna viðlíka veltu. Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 1,92% í vikunni sem er að líða og þykir það ríflegt. Nokkur munur var því hvers eðlis flokkurinn var en af veltu vikunnar voru 13,3 milljarðar með óverðtryggð skuldabréf og 6,8 milljarðar með verðtryggð.

Verðtryggð skuldabréf í vísitölu GAMMA hækkuðu um 2% og óverðtryggð um 1,8%.

Morgunblaðið greindi frá því á fimmtudag að nú sé unnið að því innan Seðlabankans að breyta áætlun um afnám hafta og hafi verið lagt til að aflandskrónueigendum verði óheimilt að fjárfesta í styttri skuldabréfaflokkum. Gangi það eftir munu þeir eingöngu fá að fjárfesta í lengri ríkisskuldabréfum. Aflandskrónueigendur eiga sem nemur 400 milljörðum króna og hafa þeir verið stórtækir kaupendur skuldabréfa síðustu árin. Kaupin hafa sér í lagi verið í styttri skuldabréfaflokkum. Með takmörkunum er samkvæmt því sem komið hefur fram talið að hægt sé að draga úr skammtímaútflæði gjaldeyris. Erlendum aðilum er heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir þær krónur sem falla til vegna vaxta og verðbóta af slíkum skuldabréfum.